Arnarlax veitir ekki upplýsingar um laxadauða

Matvælastofnun bárust tilkynningar frá Arnarlaxi um óeðlileg afföll í laxeldi fyrirtækisins í Arnarfirði í vor en hafa ekki upplýsingar um hversu margir fiskar drápust. Samkvæmt ársfjórðungsuppgjöri Salmars, sem á Arnarlax, segir að rekstarafkoma Arnarlax hafi verið um rúmlega 70 milljónir króna minni en áætlað var vegna affalla en fyrirtækið veitir ekki upplýsingar um hversu margir fiskar drápust.

Vetrarkuldi olli afföllum

Matvælastofnun bárust tilkynningar frá Arnarlaxi um óeðlileg afföll í laxeldi Arnarlax í Hringsdal í Arnarfirði í febrúar og mars og við Steinanes í Arnarfirði í apríl. Matvælastofnun telur að óvenjulágur sjávarhiti í langan tíma sé frumorsök affallanna og útilokaði með rannsóknum að sjúkdómsvaldandi örverur hafi valdið þeim eða þau væru óútskýrð.

Upplýsingar um magn fást ekki

Fiskeldinu ber samkvæmt lögum að tilkynna og skrá afföll og eiga upplýsingarnar að vera til staðar fyrir eftirlitsaðila í eftirliti sem er Matvælastofnun. Fréttastofa fékk ekki nánari upplýsingar frá Matvælastofnun í lok apríl um hveru margir fiskar hefðu drepist en stofnunin vísaði á Arnarlax, þar sem málið snýr að innra eftirliti fyrirtækisins. Eftir ítrekaðar fyrirspurnir fréttastofu svaraði Björn Hembre, forstjóri Arnarlax, og sagði að fyrirtækið hyggðist ekki tjá sig um laxadauða hjá fyrirtækinu. Upplýsingum sé komið til eftirlitsstofnunar, samkvæmt lögum. Í svari frá Ernu Karen Óskarsdóttur, fagsviðsstjóra fiskeldis, í dag segir að stofnunin hafi ekki nákvæmar tölur um fjölda fiska né hlutföll en að upplýsingar hafa verið yfirfarnar af stofnuninni í eftirliti hjá fyrirtækinu. Málinu er lokið af hálfu Matvælastofnunar.

Rekstarafkoma minnkað um 70 milljónir

Stundin greinir frá því í dag að mikill laxadauði var hjá laxeldisfyrirtækinu Arnarlaxi á fyrsta ársfjórðungi þessa árs vegna vetrarkulda. Það kemur fram í uppgjöri móðurfélags Arnarlax, Salmar AS. Í kynningu um árshlutauppgjör segir að rekstarafkoma Arnarlax hafi verið um 5 milljóna norskra króna, rúmlega 70 milljónir íslenskra króna minni en áætlað var vegna þessa.

www.ruv.is

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *