Dagbók Lögreglunnar: Vestfirðir

17 ökumenn voru kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir voru ökumennirnir stöðvaðir í Strandasýslu en einnig í Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ. Einn þessara ökumanna ók á tvöföldum hraða miðað við hámarkshraða á viðkomandi vegi, eða á 75 km hraða þar sem hámarkshraði er 30 km. Þetta var innanbæjar á Ísafirði. Sá var sviptur strax til bráðabirgða.

Í vikunni tók lögreglan skráningarnúmer af fjórum ökutækjum sem ekki hafa verið færð til lögbundinnar skoðunar. Ökumenn og eigendur eru hvattir til að hafa þessa hluti í lagi svo komist megi hjá slíkum óþægindum.

Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um að vera ölvaður við aksturinn. Það var á Ísafirði um sl. helgi.

Einn ökumaður var kærður fyrir að nota snjallsíma meðan á akstri stóð. Það var í Vesturbyggð.

Um síðastliðna helgi framkvæmdi lögreglan húsleit á heimili í Reykhólasveit. Grunur hafði vaknað um að þar væru fíkniefni meðhöndluð. Sá grunur reyndist á rökum reistur. Þar fundust kannabisefni og áhöld til meðhöndlunar. Fíkniefnaleitarhundur lögreglunnar á Vestfjörðum, Tindur, tók þátt í leitinni. Almenningur er hvattur til að koma ábendingum á framfæri við lögregluna ef upplýsingar eða grunsemdir eru fyrir hendi varðandi fíkniefni í umdæminu. Hægt er að koma ábendingum á framfæri í einkaskilaboðum á facebooksíðu þessari, með símhringingu til lögreglunnar (sími 444 0400), samtali við lögreglumann eða með því að hringja í upplýsingasíma lögreglunnar 800 5005. Fullrar nafnleyndar er gætt.

Lögreglan á Vestfjörðum vill hvetja þá ökumenn eða ökutækjaeigendur sem enn hafa ekki tekið naglahjólbarðana undan bílum sínum að drífa í því. Búast má við að sektum verði beitt upp úr næstu mánaðarmótum ef naglahjólbarðar verða í notkun þá.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *