Flugsýning á morgun laugardag – Aldarafmæi flugs á Íslandi

Hin árlega flugsýning á Reykjavíkurflugvelli verður haldin næstkomandi laugardag, 1. júní, frá klukkan 12-16. Að sögn Flugmálafélagsins verður sýningin með glæsilegasta móti þar sem nú er haldið upp á 100 ára afmæli flugs á Íslandi en fyrsta flugvélin sem hóf sig til lofts á Íslandi tók á loft frá Vatnsmýri árið 1919. Að sögn Matthíasar Sveinbjörnssonar, forseta FMÍ, stendur mikið til.

„Við hlökkum mikið til laugardagsins. Við erum með nokkur atriði sem ekki hafa sést hérlendis í fjölda ára svo sem flugbátur og loftbelgur. Á sýningunni verður að vanda fjöldi flugatriða í lofti þar sem gestir geta séð listflug, hægflug, hópflug, þyrluflug, svifflugur, fallhlífastökk og svo mætti áfram telja. Á svæðinu verða einnig alls konar loftför sem gestir geta skoðað, farið um borð og kynnst flugfólki úr flestum sviðum flugsporta á Íslandi.“

Flugbátur frá stríðsárunum

Catalina flugbátur kemur sérstaklega til landsins og tekur þátt í sýningunni en vélin var staðsett á Íslandi á stríðsárunum og kemur nú aftur í fyrsta skipti. Flugbáturinn er einn af þeim merkilegri í flugsögunni en bátarnir þjónuðu íslenskum flugsamgöngum vel á fyrstu árum farþegaflugs. Að loknum flugatriðum geta gestir skoðað flugbátinn í návígi.

Loftbelgur yfir Reykjavík

Eitt af því markverðasta í dagskrá sýningarinnar þetta árið er loftbelgur sem mun taka á loft í fyrsta sinn á þessari öld í Reykjavík. Loftbelgjaflug er vinsælt víða um heim en hefur ekki verið stundað hérlendis vegna vinda og nálægðar við stór hafsvæði en Matthías er vongóður um flugið á laugardag. „Það er reyndur maður á belgnum og við treystum því að hann meti veðuraðstæður fyrir flugið. Það er hægt að stjórna flugi loftbelgja að ákveðnu marki en vindar eru stærsti þátturinn í stefnu þeirra. Það verður spennandi að fylgjast með.“

Búist er við góðu veðri á laugardag og því kjörið fyrir fjölskyldur að drífa sig á sýninguna að sögn Matthíasar: „Veðurspáin er góð og það er allt klárt hjá okkur með atriðin, veitingar og annað sem þarf til að skapa frábæra fjölskyldustemningu á flugvellinum.“

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *