Stefnir í dýralæknisleysi á Vestfjörðum

Ekki hefur tekist að fá dýralækni til að taka við dýralæknaþjónustu Matvælastofnunar á Vestfjörðum. Fráfarandi dýralæknir segir nauðsynlegt að gera breytingar á samningnum, sem er ætlað að tryggja dýraeigendum almenna og bráðaþjónustu, – dýralæknisins vegna.

Enginn sem sinnir þjónustunni

Sigríður hefur starfað sem dýralæknir á Ísafirði í um tuttugu ár en hún hefur sagt samningi sínum við Matvælastofnun lausum frá og með 1. júlí og þá búa Vestfirðingar ekki lengur við þjónustu dýralæknis í næsta nágrenni. „Það er svolítið langt í næsta stað, Búðardal eða Stykkishólm, svo þetta er frekar afleit staða,“ segir Sigríður I. Sigurjónsdóttir, fráfarandi dýralæknir. „Fyrir utan það að þú hleypur ekki með hesta, kindur og kýr langar leiðir.“

Mikilvægt að hafa dýralækni í nágrenninu

Árni Brynjólfsson er kúabóndi á Vöðlum í Önundarfirði og formaður búnaðafélgsins Bjarma: „Það geta komið upp óvænt tilfelli þar sem, ég er ekki að segja hver mínúta, en klukkustund skiptir máli. Þannig að eru kannski ekki hundruð kílómetrar sem að bjarga svona hlutum,“ segir Árni. „Það er eðlilegt að við búum við þá stöðu að hafa aðgengi að dýralækni og þessar reglur sem liggja á okkur um að dýravelferð sé í lagi af okkar hálfu hljóta að þurfa að vera í lagi á hinn veginn,“ segir Árni.

Gengur illa að fá afleysingu

Sigríður hefur starfað samkvæmt þjónustusamningi við Matvælastofnun frá 2011, sem miðar við reglugerð sem er ætlað að tryggja dýraeigendum á dreifbýlum svæðum almenna þjónustu og bráðaþjónustu. Sigríður sinnir Vestfjörðum utan Stranda ein og þarf sjálf að finna afleysingu í sinn stað. „Og það hefur ekki gengið vel og ég hef því ekki verið í sumarfríi síðan 2011,“ segir Sigríður.

Telur mikilvægt að breyta samningnum

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun hafa engar umsóknir borist um samninginn og stofnunin hefur því  leitað til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem hefur málið til skoðunar. Sigríður telur nauðsynlegt að gera breytingar á samningnum, dýralæknisins vegna. „Þótt starfið sé alls ekki leiðinlegt þá er þessi viðvera og álag og aldrei frí, það er bara til að bræða úr manni. Mér finnst að ráðuneytið þurfi að koma betra skikki á þetta,“ segir Sigríður.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *