Þrjú snjóflóð með skömmu millibili – miklar drunur

Þrjú stór snjóflóð, tvö á Flateyri og eitt í Súgandafirði til móts við Suðureyri, féllu með skömmu millibili á tólfta tímanum í kvöld. Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út en engar fréttir hafa borist um slys á fólki. Annað flóðið var svo kröftugt að flóðbylgja fylgdi í kjölfarið. Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið sett í viðbragðsstöðu.

 Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð hefur verið virkjuð, varðskipið Þór sem var á Ísafirði hefur verið sett í viðbragðsstöðu og aðgerðarstjórn fyrir vestan er komin saman.

Íbúi sem fréttastofa ræddi við sagði báta hafa slitnað frá þegar flóðið kom og að það hafi farið meðfram varnargarðinum hjá sjoppunni og út í sjó. Bæjarbúar hafa verið að hringjast á en miklar drunur heyrðust um allan bæinn þegar flóðin féllu. Annar íbúi sem fréttastofa náði tali af sagðist hafa heyrt drunurnar í seinna flóðinu. Íbúi sem Elsa María Guðlaugs Drífudóttir ræddi við í kvöld sagði alla farna út til að bjarga og hjálpa. Björgunarsveitir ættu að koma sjóleiðis. „Maður er náttúrulega bara í sjokki sko. en samt fegin að eftir því sem ég best veit að allir séu öruggir.”

Annar íbúi sem Elsa María ræddi við sagði flóðið hafa tekið bílinn sinn.  „Það er bara við hliðina á húsinu mínu. Ég heyri hvellinn þegar bíllin fer.“ Elsa María segir að sumarhúsin sem nemendur í Lýðskólanum á Flateyri búi í hafi verið rýmd.

Guðmundur Kristjánsson, hafnarstjóri á Ísafirði,  segirí samtali við fréttastofu að allir bátarnir sem bundnir voru við bátabryggjuna og flotbryggjuna hafi slitnað frá landi. Hann viti ekki hvort þeir séu allir sokknir. Fréttastofa hefur upplýsingar um að þeir hafi flestir sokkið.  Alls voru sex bátar bundnir við bátabryggjuna og flotbryggjuna. „Það er eitthvað tjón á hafnarmannvirkjum sem ekki verður hægt að skoða fyrr en veðrinu slotar.“

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *